Ég býð ykkur öll velkomin til þessa fyrsta fundar í fundaröð Samtaka sparifjáreigenda, fundaraðar sem samtökin hafa ákveðið að efna til, í tilefni þess að tíu ár eru liðin frá hruni. Það ætti ekki þurfa að fjölyrða um þær hamfarir af mannavöldum sem yfir þjóðina dundu fyrir tíu árum og hvaða afleiðingar þær höfðu fyrir þjóðina sem heild og einstaklingana sem verst urðu úti. Hjá einstaklingunum var tjónið bæði fjárhagslegt en ekki síður það tjón sem einstaklingar urðu fyrir á sál og líkama vegna áfallsins sem af því leiðir t.d. að missa íbúðina sem búið var að borga af svo lengi, missa vinnuna eða tapa sparifé sem hugsað var til elliáranna, svo fátt eitt sé nefnt.
Við munum fyrst um sinn freista þess að skoða regluverk og efnahagslegar afleiðingar og til hvers hrunið hefur leitt til að betrumbæta þessa ytri þætti auk þess að rýna í aðrar afleiðingar fyrir þjóðarsálina.
Fyrir hrun voru Samtök sparifjáreigenda og helsti talsmaður þeirra Vilhjálmur Bjarnason óþreytandi að benda á annmarka í fjármálakerfinu og yfirgengilega sjálftöku einstaklinga sem blöstu við hverjum sem það vildi sjá. Einstaklinga sem svifust einskis í því að auðga sjálfa sig á kostnað annarra. Því miður voru stjórnvöld og fjölmiðlar of meðvirk á þeim tíma til að grípa til viðeigandi ráðstafana, jafnvel þó að þau hefðu viljað.
Samtökin létu sig einnig varða tímann strax eftir hrun og er skemmst að minnast funda sem við efndum til með t.d. Robert Aliber, prófessor frá Chicago sem reyndar varaði okkur við hruninu, fyrir hrun. Einnig má nefna William Black sem kom hingað á okkar vegum og sá líkindin með hruninu hér með bankhruni sem orðið hafði vestan hafs og skrifaði bókina um að „Besta leiðin til að ræna banka er eiga þá“ sem urðu orð að sönnu hér á landi.
En síðan en ekki síst er vert að minnast tímamótafundar sem Samtökin efndu til í desember 2008, meðan hrunið var enn ferskt og að ganga yfir, fundur með Göran Persson fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar.
Sennilega voru stjórnvöld á þeim tíma enn á þeirri skoðun að „hlutirnir mundu reddast“ svo lítið var gert með ráð Perssons þá, þó veitt væru af góðum hug einlægs vinar.
HVAÐ HEFUR BREYST?
Svo spurningin er hverju hefur verið breytt, hvað hefur áunnist en ekki hvað síst hvað eigum við eftir sem þjóð til að sættast við afleiðingar hrunsins, þannig að ekkert standi í vegi fyrir því að við tökum næstu skref framávið?
Hvað varðar umgjörð fjármálamarkaðarins þá er ljóst að regluverk á þeim vettvangi hefur verið hert verulega svo ólíklegt má telja að samskonar hrun verði aftur og við máttum upplifa fyrir tíu árum. Á nokkrum sviðum fjármála hafa verið settar strangari reglur um fjárhæðir og hlutföll heldur en tíðkast meðal nágrannaþjóða okkar sem er ekki óeðlilegt í ljósi sögunnar og fákeppni og einsleitni íslensks fjármálamarkaðar.
…
Engar þessara breytinga tryggja okkur aftur á móti fyrir öðru fjármálahruni sem er næsta öruggt að yfir okkur mun ganga. Spurningin er aðeins hvenær og með hvaða hætti það verður. Við vitum ekki hvað það er sem okkur er núna að yfirsjást
…
Svo spurningin er hvernig hefur okkur tekist að taka til í eigin ranni á öðrum sviðum heldur en hinum tæknilegu sviðum fjármálamarkaðarins, að okkar eigin frumkvæði?
STJÓRNVÖLD OG ATVINNULÍF
Þær breytingar sem gætu verið til skoðunar undir þeim hatti eru tvennskonar. Annars vegar þær sem snúa að stjórnmálunum og hins vegar þær sem snúa að athafnalífinu.
Ef við skoðum þær sem snúa að athafnalífinu þá er ljóst að fjöldi fyrirtækja gafst upp á rólunum og verulegar breytingar urðu á eignarhaldi fjölda fyrirtækja. Verulegur fjöldi stórra fyrirtækja lenti í höndunum á lífeyrissjóðum landsmanna. En fyrirtækja¬kúltúrinn, hefur hann eitthvað breyst?
Vel má vera að ráðamenn í fyrirtækjum hafi haldið að sér höndum í að skara eld að eigin köku, í örfá misseri eftir hrunið en það virðist ekki lengur raunin. Daglega berast okkur fréttir af launum sem greidd eru forstjórum fyrirtækjanna, launum sem eru langt út úr korti við skynjun alls venjulegs fólks á eðlilegum launagreiðslum.
Þessi ofurlaun eru til þess fallin að auka á þá tilfinningu almennings að hann hafi verið skilinn eftir og þeir sem fleyttu rjóman fyrir hrun fái að gera það áfram.
Til viðbótar hlýtur almenningi að gremjast að þetta gerist allt í boði lífeyrissjóðanna sem hafa það eitt hlutverk að þjóna þeim sama almenningi. Þannig hefur ekki orðið nein hreyfing í þá veru hjá lífeyrissjóðum að koma sér saman um samræmt launakerfi í fyrirtækjum í þeirra eigu, heldur þvert á móti, að fyrir samkomulagsleysi lífeyrisssjóðanna þá eru stjórnir fyrirtækjannna leiksoppar forstjóranna sem spila á og með stjórnirnar, sjálfum sér til hagsbóta.
Þetta ber ekki svo að skilja að ég telji ekki að lífeyrissjóðirnir hafi hlutverki að gegna, þeir eru afar mikilvægar stofnanir í samfélagi okkar og þrátt fyrir allt trygging almennings til framtíðar og fyrir ófyrirséðum áföllum. En í þessum efnum hafa þeir aftur á móti brugðist.
RÍKIÐ SPILAR MEÐ
Það sama virðist gilda um stjórnendur í ríkisfyrirtækjum. Þeir njóta kjara og kjarabóta langt umfram það sem almenningur hefur notið eftir hrun. Þegar ljóst var að kjör forstjóra stofnanna og fyrirtækja ríkisins yrði framvegis í höndum stjórna viðkomandi fyrirtækis eða stofnana þá sendi þáverandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson bréf til þessara sömu stofnana með beiðni um að launum forstjóranna yrði stillt í hóf eða eins og sagði í bréfi ráðherrans sem vildi:
„vekja sérstaka athygli á mikilvægi þess að stjórnir hafi í huga áhrif launa ákvarðana á stöðugleika á vinnumarkaði og ábyrgð félaganna í því sambandi.“
Er skemmst að minnast að þessi eðlilegu og sanngjörnu tilmæli voru að engu höfð og upp hófst útdeiling launa til æðstu stjórnenda eins og enginn væri morgundagurinn.
Eftir situr almenningur með það óbragð í munni og þá tilfinningu að hafa þurft að taka á sig allar byrðarnar en fá ekki notið neins þegar úr hefur ræst. Gildir þetta bæði um ríkisvaldið og eins og áður er getið og fyrirtækin í eigu lífeyrissjóðanna. Hvoru tveggja fyritæki sem með réttu eiga að svara fyrir gjörðir sínar gagnvart almenningi einum.
EINHVER VON UM HUGARFARSBREYTINGU?
En hvað um viðleitni til breytingar hugarfari og afstöðu til þess hvernig við gerum hlutina yfirleitt á Íslandi?
Eftir hrun var án nokkurs vafa raunverulegur vilji til að reyna nú að gera hlutina öðruvísi en áður, og þá ekki bara einhver tæknileg atriði á vettvangi fjármálamarkaðarins, heldur hér yrði um nýtt upphaf að ræða, upphaf annars konar þjóðmenningar.
Með réttu eða röngu var ein viðleitni í þessa átt að að efna til endurskoðunar stjórnarskrárinnar með kjöri til Stjórnlagaráðs og framlagi þess til endurskoðunar stjórnarskrárinnar. Ýmis fleiri atriði mætti nefna t.a.m. aukin tíðni þjóðaratkvæðagreiðslna og viljinn til að efna til þeirra.
Eftir því sem lengra hefur liðið frá hruni hefur komið í ljós að bæði áhrifamiklir einstaklingar og valdamiklar stjórmálahreyfingar vilja ekki sjá neinar breytingar og að þeir telji að aðeins hafi orðið hiksti í annars góðu kerfi, sem er gott fyrst og fremst vegna þess að þeir trúa því að það verndi best þá hagsmuni sem þeir hafa boðið sig fram til að vernda. Á meðan kraumar óánægja almennings þó á henni beri misjafnlega mikið.
Hvað er þá það sem veldur þeirri úlfúð og óánægju sem býr með þjóðinni?
Nokkrir orsakavaldar eru áreiðanlega eins og fyrr er getið að
• Þeir sem lifðu hátt og hreyktu sér fyrir hrun, margir þeirra gera það enn og ekki er séð að hrunið hafi haft áhrif á lífsstíl þeirra og upp hafa risið nýjir aðilar sem leyfa sér hið sama að stórum hluta á kostnað ríkisins og lífeyrissjóða.
• Almenningur tók á sig að borga fyrir hrunið, fólk var reiðubúið að taka á sig mikla launaskerðingar í trausti þess að eitt myndi yfir alla ganga og kjör þeirra yrðu leiðrétt síðar.
• Lærdómurinn af hruninu yrði að á Íslandi rynnu upp nýjir tíma, hér yrði einhverskonar nýtt upphaf, þar sem menn spyrðu sig grundvallarspurninga um það samfélag og þá samfélagsgerð sem við búum við.
Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að þjóðin telur að engin hugarfarsbreyting hafi orðið. Engin umbylting í samfélaginu, heldur að við hjökkum enn í sama farinu engin eðlisbreyting hafi orðið.