Svo bar við í upphafi heimastjórnar að konungur Danmerkur og Íslands kom í heimsókn. Hápunktur heimsóknar konungs var ferðalag konungs austur í sveitir. Að ferð lokinni, við komu í bæinn, sagði vor sæli konungur, sennilega ekki mikið ódrukkinn; „ríkin mín tvö“, en það töldu Íslendingar staðfestingu þess að sjálfstæði væri eigi langt undan. Það er talið að konungur vor hafi mælt þessi fögru orð í brekkunni fyrir ofan Stjórnarráðið, þar sem verið var að ljúka við byggingu á Safnahúsinu. Það lá vissulega vel á kóngi í þessari Íslandsferð. Má vera að hann hafi orðið músíkalskur í ferðinni, jafnvel hitt Maurice Ravel á Þingvöllum! Það er nefnilega til póstkort frá tónskáldinu frá svipuðum tíma, ritað á Þingvöllum.
Það er nefnilega þannig, að allar götur frá því Íslendingar fengu sjálfstæði og fóru að ráða eigin málum, þá hafa þeir sem málum ráðið verið að leita leiða til að mismuna þegnum, búa til tvö ríki og tvær þjóðir, en ávallt haft að leiðarljósi að gera það með málefnanlegum hætti. Svo hafa þeir vaðið eld og brennistein við að réttlæta ruglið. Þannig var leitað leiða til að mismuna litlum bönkum og stórum bönkum þegar lagður var á „bankaskattur“. Þá varð leiðsögnin sú að mismuna með þeim hætti að lítill MP banki greiddi aðeins örlítinn „bankaskatt“ því MP banki hafði ekki „valdið hruninu“.
Málefnanleg skipting
Þjóðin hefur skipt sjálf með sér með mismálefnanlegum hætti. Þannig var til þjóð í landinu sem áði í Brúarskála en önnur þjóð sem áði í Staðarskála þegar farið var úr eða í Húnavatnssýslu. Einnig voru tvær þjóðir, sem keyptu eldsneyti á mismunandi stöðum, ESSO eða SHELL. Þeir sem ekki tilheyrðu neinni þjóð keyptu sitt eldsneyti hjá BP. En eins og Örn Úlfar sagði; „Manneskjan er yfirleitt ósíngjörn vera, sífellt reiðubúin til að aðhyllast hugsjónir, einkum ef þær eru nógu fjarri því að bæta hag hennar, en berjast með oddi og eggju gegn óvinum ef þeir eru nógu óraunverulegir, ótrúlegir eða óskiljanlegir, ég tala nú ekki um ef þeir eru grýla ein.“ Og svo bætir Bjartur um betur og segir; „Er nokkrum of gott að vera fífl?“ Bjartur var eins og aðrir, hann talaði til að leyna hugsun sinni.
Erlendir aðilar, sem að hluta til eru innlendir aðilar
Því er þetta rætt nú að enn ræður tvíhyggja ríkjum í huga íslenskrar þjóðar. Það er ekki að þjóðin hafi orðið mikið músíkalskari með árunum. Það er helst að fjöldi mæti á tónleika þar sem graðhestatónlist er í boði. Í hugum þeirra er hafa komið til starfa í íslenskri fjármálastarfsemi er ekki talið óeðlilegt að fjármálastarfsemi þrífist eftir öðrum reglum og utan við það sem gerist hjá íslenskri þjóð. Þannig segir einn þeirra sem þiggur kaupauka úr hendi gjaldþrota banka, endurreistum á rústum banka, sem jaðraði við að vera glæpabanki; „Aðspurður um andrúmsloftið í þjóðfélaginu í dag þar sem erfiðar kjaraviðræðum hafa m.a. staðið yfir segir hann greiðslurnar hjá ALMC lúta öðrum lögmálum. „Þarna eru erlendir aðilar sem eru að vinna fyrir erlenda aðila þrátt fyrir að hluti af þeim séu innlendir aðilar. Þetta lútir þeim lögmálum sem svona gerir erlendis,“ segir hann og bætir við að málið sé því ekki alveg sambærilegt öðrum. „Þetta er klárlega ekki einsdæmi á alþjóðlegum vettvangi.“ Svo mælti forstjórinn! Þetta er sönn saga sögð í einlægni, andstætt lyginni, sem oft er merkilegri. Þarna eru „erlendir aðilar innlendir aðilar“ eða þannig! Við liggjum því ekki lengur lengst útafburt allra manna í jarðríki, við tökum upp siðu miðlægra þjóða. Til að gera kaupaukana óskiljanlega dauðlegu fólki þá segir forstjórinn fyrrverandi: „Aðspurður um grundvöllinn fyrir greiðslunum og útreikninga þar að bak við segir hann kerfið vera flókið en bætir við að greiðslurnar séu í takti við þann árangur sem félagið hefur náð.“ Er nú ekki rétt að skila til þeirra sem lögðu efniviðinn til? Hvað kemur það málinu við hvað gert er erlendis?
Nú vill til að sá er þetta ritar er meðlimur í lífeyrissjóði sem tapaði um 2,5 milljörðum á starfsemi upphaflega bankans í þessari röð. Það er erfitt að sætta sig við að í kjölfar gjaldþrots, sem að vísu var lokið með einhvers konar nauðasamningi, þá eru starfsmönnum greiddir 3,3 milljarðar í „kaupauka“. Fyrir hvaða afköst? Ég sætti mig ekki við þess háttar afgreiðslu, ég greiddi ekki í lifeyrissjóð til að dreifa í kaupauka misvitra manna! Eða er þetta ekki hluti af stöðugleikaframlagi viðkomandi fjármálastofnunar? Greiðslujafnaðarvandi þessarar fjárhæðar er samur, hvort heldur hann lendir hjá kröfuhöfum ellegar útvöldum aðli starfsmanna.
Önnur mál
Önnur mál sem upp haf komið á liðnum vetri eru til þess fallin að misbjóða venjulegu fólki. Sala Arion banka á hlutabréfum í Símanum hf. er rugl. Þessi setning; að samþætta hagmuni starfsmanna og félagsins! Þetta hefur heyrst áður um gjafagerninga. Þá lánuðu íslenskir bankar starfsmönnum fyrir eigin hlutabréfum, án trygginga og fölsuðu eigið fé bankanna. Tryggingin var í eftirstæðum eignum bankans sjálfs! Það var hluti af markaðsmisnotkun, sem er dæmt fyrir. Nú á að reyna eitthvað svipað, eins og hjá rónanum, sem ætlar ekki að fá timburmenn næst þegar hann drekkur.
Á sama veg er Borgunarmál. Þar eru útvaldir starfsmenn, sem vita aðeins meira en gagnaðilinn í samingnum. Það er hrúgað inn upplýsingum í gagnaherbergi. Sennilega að mestum hluta gagnslausar upplýsingar, en aðalatriðið liggur falið. Ef mál eru þannig vaxin heita það innherjasvik. Um það er fjallað í lögum um verðbréfaviðskipti. Samsvarandi ákvæði er í fjársvikakafla hegningarlaga.
Endurtekning
Þegnar þessa lands eru greiðendur að forréttindum útvalinna. Það á við um óhóflegan vaxtamun! Það á við um símakostnað! Það á við um greiðslukortagjöld, hvort heldur þau eru falin eða birtast í heimabanka! Það á við um greiðslujafnaðarvanda þegar eignum slitabúa er skotið undan stöðugleikaframlagi! Þeir, sem sitja á bekk í fjármálafyrirtækjum, virðast hafa fullan vilja til að endurskapa og endurtaka ósiði fyrri tíðar. Konungur vor skipti ríkjum sínum með málefnanlegum hætti. Skipting í boði fjármálaheimsins hefur aldrei verið málefnanleg. Þeir, sem hafa lýst skiptingunni, hafa gjarnan litið út eins og gljáfægðir hlandkoppar. Hér varð siðrof milli þjóðar og fjármálaheims. Siðrof verður ekki endurtekið.