„Nægjanlegt framboð á fasteignum og lánsfé, og stöðugleiki og traust í efnahagsmálum tryggir lífskjör almennings en ekki óráð sem byggjast á lýðskrumi.“
Því er þannig farið í stjórnmálum að flokkar og frambjóðendur reyna að skapa sér sérstöðu. Stjórnmálamenn eru ekkert frábrugðnir framleiðendum vöru og þjónustu; hvar í hillu er svæði fyrir mig og minn flokk? Það er einfalt mál fyrir þá sem hafa flatar hugsjónir en mikla útgeislun til lýðskrums að finna mál til vinsælda.
Stjórnarskrá
Um tíma hefur ákveðinn hópur fólks talið að stjórnarskrá lýðveldisins væri upphaf og endir alls vanda. Þó er það svo að það var fyrst 70 árum eftir að Ísland fékk stjórnarskrá að ákvæði stjórnarskrár voru málsástæður, sem réðu úrslitum í dómsmáli. Þegar fjármálafyrirtæki urðu óstarfhæf var ekki hægt að kenna ákvæðum stjórnarskrár um hvernig fór.
Verðtrygging
Nú er heill stjórnmálaflokkur, sem lætur þau boð út ganga að vart verði hægt að ganga til kosninga nema „verðtrygging“ verði afnumin. Nú er það svo að almenn verðtrygging fjárskuldbindinga varð fyrst heimil með lögum um „stjórn efnahagsmála“ en frumvarpið var flutt af „forsætisráðherra“, en fyrir glettni örlaganna var hann formaður Framsóknarflokksins. Frumvarpið var samþykkt með atkvæðum þeirra sem voru á móti því gegn atkvæðum þeirra sem voru með því.
Það er dálítið erfitt að ræða breytilega vexti með vitrænum hætti á Íslandi. Það einfalda málefni er tilfinningamál þar sem lýðskrumarar í hópi stjórnmálamanna spila á tilfinningar og rangar upplýsingar.
Útreikningur breytilegra vaxta á því formi, sem heimilt er í lögum um vexti og verðtryggingu, er neytendum mjög hagfelldur hvað varðar greiðslubyrði. Breytilegir vextir þar sem breytileikinn er innifalinn í nafnvöxtum eru ekki „óverðtryggðir vextir“ eins og auglýsingar segja. Það er einungis tilvísun í það að breytilegi þátturinn er staðgreiddur, en ekki dreift á eftirstöðvar lánstímans eins og gert er með verðtryggingu.
Það er fleira sem er breytilegt. Laun eru breytileg, þau hafa hækkað um rúmlega 1% á ári frá 1990, umfram neysluverðsvísitölu. Það þýðir á mannamáli rúmlega 1% kaupmáttaraukning á ári. Fasteignaverð hefur einnig breyst, það hefur hækkað meira en laun og þar með neysluverðsvísitala. Neysluverðsvísitala er sem kunnugt er notuð sem grundvöllur breytileika í vaxtakjörum verðtryggðra lána. Samkvæmt þessu er vandamálið fasteignaverð. Kann að vera að vandamálið sé of lítið framboð á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu? Lítið framboð veldur verðhækkun! Er ekki ráð að hugsa centralt!
Bábiljur
Svo koma bábiljurnar. Hópur gáfumanna var settur í nefnd til að fjalla um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Hefði nú ekki verið nær að fjalla um vexti á löngum lánum? Hvað um það, nefndin skilaði skýrslu, reyndar tveimur. Nefndin skiptist að lokum í tvo hópa! Annar hópur nefndarmanna vildi stíga hægt til jarðar og hafði vart önnur úrræði en að banna 40 ára lán! Hinn hópurinn, sem samanstóð af einum nefndarmanni, lét tvo mikla stjörnuhagfræðinga skrifa fyrir sig skýrslu og ráð. Ráðið var að afnema „verðtryggingu“! Og hvað svo?
Ekki lá fyrir hvernig verkalýðsforinginn, sem var einn í hópi, vildi meðhöndla eignir lífeyrissjóða eða eftirlaun þeirra sem eiga sín réttindi í lífeyrissjóðum. Það gleymist að stærsti eigandi „verðtryggðra“ eigna er lífeyrissjóðir samanlagt. Formaður Framsóknarflokksins, sem hafði forgöngu um almenna heimild til verðtryggingar, var ekki eingöngu að verja venjulega sparifjáreigendur, hann var að verja réttindi í lífeyrissjóðum. Suma verkalýðsleiðtoga varðar ekkert um slíkt í dag!
Ein bábiljan er sú að 40 ára lán með sömu vaxtakjörum og 25 ára lán sé miklu „dýrari“! Sú ályktun byggist því að summa greiðslna í 40 ár sé hærri en summa greiðslna í 25 ár! Þeir sem halda slíku fram hafa aldrei heyrt talað um núvirðingu framtíðargreiðslna, grundvallaratriði fjármála. Greiðslur á ólíkum tímum eru ekki samanburðarhæfar ef ekki er núvirt með sömu ávöxtunarkröfu. „Verðtryggð“ lán til 25 ára og 40 ára með sömu vöxtum eru jafn „dýr“. Hví þá að banna 40 ára lán? Það vill nefnilega til að verðtryggt lán til 25 ára og með 3,75% vöxtum er með 29% hærri greiðslubyrði en 40 ára lán með 3,75% vöxtum. Lánin eru þó jafn „dýr“, núvirt á 3,75% ávöxtunarkröfu!
„Óverðtryggt lán“ til 25 ára, með 8,94% vöxtum er með 54% hærri greiðslubyrði en 25 ára lán með 3,75% vöxtum og 5% verðbótum, á fyrsta ári. Lánin eru „jafn dýr“, með sömu ávöxtunarkröfu. Er þetta til bóta. Von er að spurt sé hverju skuli ná fram!
Og hví að banna verðtryggð lán til skemmri tíma en 10 ára? Hví eiga lánaviðskipti til skemmri tíma en 10 ára að byggjast á geðþótta sterka aðilans í viðskiptunum, þ.e. lánveitandans, sem ákveður vextina, þegar hlutlæg mæling er til?
Vísindi og lýðskrum
Eru þetta vísindi eða lýðskrum? Eða eins og læknirinn sagði; „allir sem halda að þeir séu skáld eru vitlausir“. Ef framlag launþega í lífeyrissjóði verður einungis gangsilfur til að þjóna visku hagspekinga eins og þeirra sem fjölluðu um „verðtryggingu“ í fyrr nefndri nefnd, þá þarf að auka tryggingagjald hægt og bítandi í 30% til að hægt verði að standa undir aukinni lífeyrisbyrði í framtíðinni. Nú um stundir standa sex vinnandi einstaklingar undir einum á lífeyrisaldri en það á eftir að breytast á þann veg að þrír vinnandi munu standa undir einum á lífeyrisaldri. Þetta er kostur gegnumstreymiskerfis! Ekki má víst nefna lánaviðskipti í annarri mynt en íslenskri krónu en aðeins lítill hluti mannkyns á þess kost að eiga lánaviðskipti í íslenskum krónum.
Útgönguleið lífeyrissjóða
Auðvitað eiga lífeyrissjóðir útgönguleið ef óráð verða að ráðum. Önnur leiðin er að fjárfesta meira af ráðstöfunarfé sínu erlendis. Ekki mun það leiða til lægri vaxta en þeirra sem nú eru á húsnæðislánum hérlendis, en háir raunvextir er það vandamál sem við er að eiga, auk lítils framboðs á fasteignum á höfuðborgarsvæðinu og lítils framboðs á frjálsum sparnaði vegna vantrausts. Hin útgönguleið lífeyrissjóðanna er að veita „óverðtryggð“ lán (þótt ég geri athugasemdir við það hugtak eins og áður segir). Vextir á slíkum lánum yrðu samtala raunvaxta og áætlaðrar verðbólgu en sú áætlun yrði að byggjast á verðbólguspám og óvissuálagi vegna þeirrar spár. Enginn mundi veita slíkt lán til langs tíma nema með endurskoðunarákvæði í ljósi verðbólguþróunar. Fullyrða má að slík lánskjör yrðu óhagstæðari en verðtryggð lán.
Nægjanlegt framboð á fasteignum og lánsfé, og stöðugleiki og traust í efnahagsmálum tryggir lífskjör almennings en ekki óráð sem byggjast á lýðskrumi.
Höfundur er alþingismaður.
Comments are closed.