Jón Hreggviðsson kaupir banka
„Ég heyri sagt að þú hafir keypt banka Jón Hreggviðsson, sagði Arnas Arnæus. Er það rétt?” Jón Hreggviðsson hófst í sæti sínu og ansaði:
„Hef ég keypt banka eða hef ég ekki keypt banka? Hver hefur keypt banka og hver hefur ekki keypt banka? Hvenær kaupir maður banka og hvenær kaupir maður ekki banka? Fari í helvíti sem ég keypti banka. Og þó.”
Jóni Hreggviðssyni fannst í raun að hann hafi aldrei hafa keypt banka. Það hafa engar vísibendingar fundist um að Jón Hreggviðsson hafi keypt banka.
Um þessar mundir eru tólf ár frá því tilkynnt var að Egla hf., hlutafélag með 10 milljóna hlutafé, hafi keypt 45,8% af hlutafé í Búnaðarbanka Íslands hf. Aðili að þessum kaupum var þýskur banki, Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KgaA. Í fréttatilkynningu sem hinn þýski banki sendi út segir meðal annars: „Hann var stofnaður fyrir 206 árum og er meðal annars með starfsemi í Sviss og Lúxemborg.“ Í árskýrslu bankans fyrir árið 2003 kemur i ljós að bankinn hafði engan vaxtamun í rekstri sínum í Sviss, en um 3,2, milljónir EUR í Lúxemborg. Þóknanatekjur voru 0,9 milljón EUR í Sviss og 8,9 milljónir í Lúxemborg þetta sama ár. Með því að þegja um þessa þætti í fréttatilkynningunni mátti ætla að Hauck & Aufhäuser væri mjög merkilegur banki, enda þótt enginn hafi nokkru sinni heyrt hans getið.
Fréttatilkynning um sölu á Búnaðarbankanum
Í fréttatilkynningu frá 16. janúar 2003 frá kaupendum Búnaðarbankans segir:
„Það eru mikil tíðindi að traustur, erlendur banki taki þátt í að fjárfesta í íslenskri fjármálastofnun. Búnaðarbankinn kemur til með að njóta þekkingar, reynslu og viðskiptasambanda þýska bankans í starfsemi sinni. Enn mikilvægara er að með eignarhaldi þýska bankans í Búnaðarbankanum skapast tengsl sem íslensk fyrirtæki geta notfært sér til að styrkja starfsemi sína í sókn á erlendum mörkuðum. Þetta er afar mikilvægt þegar haft er í huga að möguleikar íslenskra fyrirtækja til að vaxa verulega og dafna tengjast fyrst og fremst alþjóðlegri starfsemi.“
Fulltrúi sá er Hauck & Aufhäuser tilnefndi til setu í bankaráð Búnaðarbanka Íslands h.f. spurði engra spurninga um rekstur bankans, bað ekki um neinar skýrslur og hafði engan áhuga á rekstri Búnaðarbankans. Á sama veg hafði starfsfólk Hauck & Aufhauser í Luxembourg engan áhuga á nokkrum samskiptum við Búnaðarbanka Íslands hf., sem þá var með útibú í Lúxemborg. Enginn kannast við nokkra samvinnu hins þýska banka og Búnaðarbanka Íslands hf.
Efi sækir á höfund
Fyrir 9 árum efaðist höfundur þessarar greinar um að hinn þýski banki hafi nokkuru sinni keypt hlut í Búnaðarbanka Íslands hf. Ástæður efasemda voru þær að það var erfitt að sjá það í ársreikningum hins þýska banka fyrir árin 2003 og 2004.
Annar angi
Það er ástæða til að rifja þessi viðskipti um þegar búið er að dæma í máli sem höfðað var vegna viðskipta með hlutabréf í Kaupþingi hf. þar sem tilkynnt var að „Hans hátign Sheikh Mohammed Bin Khalifa Al-Thani kaupir 5% hlut í Kaupþingi“. Sjónhverfing viðskiptanna var sú að Kaupþing hf. stóð eins fyrir og eftir viðskiptin og viðskiptin dæmd markaðsmisnotkun, eins og segir í samskiptum innan Kaupþings hf.: „þetta er bara þannig ég held að það sé, eigi bara að fara að tjakka, setja tjakkinn af stað, bara búa til eftirspurn“. Í dómi Hæstaréttar segir um brotin;
„…. en þau voru þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi.“
Því er við að bæta að þann 19. janúar 2009 segir Ólafur Ólafsson:
„Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, þá greiddi Al Thani fjölskyldan hinn 8. október 12,5 milljarða af þeim hluta lánsins, sem hún var í ábyrgð fyrir og hinn 21. október hafði ég milligöngu um að greiða fyrir fjölskylduna eftirstöðvarnar með vöxtum sem þá voru 402 milljónir króna.“
Þess sáust ekki merki í dómi Héraðsdóms eða Hæstaréttar að þessi greiðsla á 12,5 milljörðum hafi átt sér stað.
Því eru viðskiptin með hluti í Búnaðarbanka Íslands hf. árið 2003 rifjuð upp að margt er líkt með þeim viðskiptum og þeim sem voru tilefni til dómsmáls sem á undan er rakið. Erfitt var að afla upplýsinga frá þýska bankanum aðkomu hans að viðskiptunum. Í ársreikningum bankans árin 2003 og 2004 er þessara viðskipta ekki getið. Bankinn gefur upp eignarhluta í fjármálafyrirtækjum en stærðin er slík að eignarhlutur í Búnaðarbanka Íslands hf. rúmast ekki innan þeirrar stærðar sem upp er gefin. Ofurhagnaðar af eignarhaldi gætir ekki í reikningum bankans.
Úr reikningum Hauck & Aufhäuser
Í bréfi frá KPMG í Þýskalandi frá 17. mars 2006 segir:
„Hauck & Aufhäuser held shares of EGLA hf in the bank´s own holdings of securities in the financial year 2004.
The accounting treatment complies with requirements of the German Commercial Code and Banking act relating to the accounting for own holdings of securities.“
Til þess að eign sú rúmist innan efnahagsreiknings bankans árið 2003, þá eru tveir efnahagsliðir í reikningi bankans, báðir jafn háir.
Á eignahlið í reikningnum er; „Assets held on trust basis“ EUR 172.585.589,72
Á skuldahlið í reikningnum er; „Liabilities held on a trust basis“ EUR 172.585.589,72
Ári síðar, þ.e. í efnahagsreikningi í árlok 2004 er þessi liður EUR 167.719.096,88
Báðir þessir hliðir taka sömu breytingum og hafa því ekki áhrif á rekstarniðurstöðu bankans.
Af því sem rakið er hér, efnahagsliðum hins þýska banka sem „….var stofnaður fyrir 206 árum og er meðal annars með starfsemi í Sviss og Lúxemborg. Bankinn sérhæfir sig í sjóða- og eignastýringu fyrir stofnanir og einkaaðila, umsjón verðbréfa fyrir sjóði og fjármálastjórn fyrirtækja og einstaklinga.“
Þegar höfundur þessarar greinar fjallaði um þetta mál árið 2006 vildi Fjármálaeftirlitið á Íslandi litla aðstoð veita. Afstaða Ríkisendurskoðunar var sú að rétt væri að afsanna kenningu höfundar um að „útilokað væri að hinn þýski banki hafi keypt hlut í Búnaðarbanka Íslands hf.“ með því að væri ekki útilokað að hinn þýski banki hafi keypt hlut í Búnaðarbankanum. Það var því lítill vilji til að fá hið sanna fram í málinu.
Eftirmál frá Hauck & Aufhäuser
Við ritun þessarar greinar reyndi höfundur að afla frekari upplýsinga frá hinum þýska banka. Í skeyti þann 19. febrúar segir fulltrúi hins þýska banka;
„Please note that Hauck & Aufhaeuser Privatbankiers KGaA is not a publicly listed company, nor it is otherwise legally required to distribute historic corporate documents. We have therefore made checked your request by our corporate center. Following its answer we are sorry to inform you that – due to our Group policy – we are not distributing such documents on voluntary basis.“
Það sem sagt er hér að framan fellur vel að lýsingum um þátttöku hins þýska fulltrúa á stjórnarfundum í Búnaðarbanka Íslands hf. Áhugi hins þýska fulltrúa var nákvæmlega enginn. Miðað við hraða á sameiningu Búnaðarbanka Íslands hf. og Kaupþings hf. get ég mér til um fyrir hvern þýski bankinn var að varðveita eignir.
Stílfræðingar, sem lesið fréttatilkynningarnar frá 2003 um kaup Haucuk und Aufhäuser og frá 2008 um „kaup“ Al Thani í Kaupingi hf., telja stíleinkenni svipuð. Tilgangurinn í báðum tilfellum var sá sami; blekking.